Fjallagrös

Fjallagrös eru fléttur sem eru sambýli svepps og þörungs. Um er að ræða samvinnu tveggja lífvera sem báðar hagnast á. Sveppurinn sér sambýlinu fyrir vatni og steinefnum en þörungurinn myndar lífræn efni með hjálp ljóstillífunar.

Fjallagrös innihalda hátt hlutfall af vatnsleysanlegum fjölsykrum ásamt sérstökum fléttusýrum sem ekki finnast annars staðar í náttúrunni en í fléttum. Margar vísindarannsóknir hafa verið gerðar á virkni framangreindra efna og eru helstu niðurstöður eftirfarandi:

• Andoxunarvirkni

• Virkni gegn bakteríum

• Virkni gegn veirum

• Virkni gegn æxlisvexti

• Styrking ónæmiskerfisins

 

Lækningamáttur

Til lækninga hafa fjallagrös einkum verið notuð gegn kvillum í öndunarvegi, s.s. kvefi, lungnakvefi, asma og berklum. Einnig gegn kvillum í meltingarfærum, s.s. meltingartruflunum, magabólgum og hægðatregðu, og sem lystaukandi meðal. Auk þess hafa þau verið notuð útvortis sem bakstrar á exem, þurra húð og á sár sem gróa illa.

 

Tínsla

Venja hefur verið að tína grösin með höndunum þegar þau eru blaut til að sem minnst af öðrum gróðri fylgi með. Þessi aðferð er frekar seinleg en hentar vel þar sem grösin vaxa innan um runna og lynggróður.

Önnur aðferð er að raka þurrum grösum upp úr sverðinum með e.k. hrífum eða kröfsum. Hrífa með styttum haus og minnkuðu tindabili hefur skilað góðum árangri við tínsluna. Augljóslega fylgir meira af aðskotagróðri með en ef grösin eru tínd blaut með höndum en tæknivædd hreinsun á grösum getur vegið upp á móti því.

Nauðsynlegt er að þurrka grösin strax eftir tínslu. Best er að dreifa úr þeim og snúa þeim reglulega.  Einföld og ódýr tækni getur aukið afköst við hreinsun grasanna. Hreinsunin getur farið fram  með þrennu móti: á ristmeð lofti og með því að fleyta óhreinindin úr grösunum með vatni. Til að geta hreinsað grösin með vatni þarf rúmgott húsnæði og nægilegt rennandi vatn. Aðferðin sem valin er markast að einhverju leyti af húsnæðinu og því hve mikill fylgigróður og önnur óhreinindi eru með  grösunum.

Öll vinna við grösin, s.s. þurrkun, hreinsun og geymsla, verður að fara fram á svæði sem er ómengað af dýraúrgangi.

 

Fjallagrasanytjar

Það er líklegt að íslenska þjóðin hafi notað fjallagrös allt frá landnámi árið 874. Fyrstu heimildir á Íslandi um fjallagrös er að finna í Jónsbók þar sem bannað var að tína grös á landi annarra bænda.  Í Íslendingasögunum er sagt frá grasaferðum. Góðir grashagar voru metnir sem hlunnindi og juku verðgildi jarða.  Frá 18. og 19. öld eru margar heimildir um almenna notkun fjallagrasa á Íslandi.

Allir bæir sem höfðu fjallagrasahlunnindi á jörðum sínum sendu hóp fólks, á hverju sumri, til að safna vetrarforða af grösum.  Ferðin var oftast farin í júní og tók um 6-14 daga. Þátttakendur voru aðallega konur og unglingar undir stjórn eins karlmanns.  Hópurinn fór til fjalla á hestum, búinn tjöldum, mat og skinnpokum fyrir grasatínsluna.  Þegar komið var á áfangastað voru tjöldin reist, helst við læk eða á, eldstæði var útbúið og mosa og lyngi dreift í tjaldbotnana. Vinnan við söfnun fjallagrasanna hófst að kvöldi eða snemma nætur. Safnarinn hengdi pokann á öxl sér með sérstöku ofnu ullarbandi og menn dreifðu sér um svæðið. Safnað var alla nóttina enda bjart allan sólarhringinn á þessum tíma árs og jörðin rök af dögg. Rakinn mýkir fjallagrösin og auðveldar söfnun þeirra og aðskilnað frá öðrum gróðri.

Að morgni hélt fólk aftur til tjaldanna og settist að snæðingi. Ef til þess viðraði voru grösin þurrkuð úti í sólinni. Eftir máltíðina skemmtu menn hver öðrum með söng og rímnakveðskap. Sögur af álfum, huldufólki og útlögum voru einnig mjög vinsælar á þessum stundum. Eftir það lagðist fólk til svefns þar til kvöldaði, að haldið var til tínslu að nýju.  Þegar grasaferðin var á enda var afraksturinn fluttur á hestum aftur heim til bæja. Þar var lokið við að þurrka grösin og hreinsa þau. Vetrarforðinn var geymdur í pokum og tunnum á þurrum stað. Grösin voru notuð á ýmsan hátt til matargerðar.

Litið var á grösin sem holla og næringarríka fæðu, auðuga af steinefnum, einkum járni, kalsíum og trefjaefnum. Grösin voru notuð með margvíslegum hætti, t.d. í fjallagrasamjólk, fjallagrasagraut, brauð, slátur og til tegerðar.

  • Matargerð:   Dæmi um hefðbundna matargerð úr fjallagrösum:
  • Vatnsgrautur:  Fjallagrös bleytt og skorin með sérstökum bognum hnífi.  Heitu vatni hellt yfir. Hveiti eða hrísgrjónum bætt út í.   Soðinn og borðaður með mjólk.
  • Fjallagrasamjólk; Heil fjallagrös soðin í mjólk og borðuð eins og súpa.
  • Fjallagrös voru notuð til að drýgja hveiti í brauð og sláturgerð, einkum á harðindatímum.
  • Fjallagrasate:  Fjallagrös soðin í vatni. Grösin síuð frá og vökvinn notaður til drykkjar.  Þessi drykkur var talinn mjög heilsusamlegur og var mikið notaður við kvillum í öndunarvegi, s.s. kvefi, lungnakvefi, asma og berklum. Einnig gegn meltingartruflunum, magabólgum og hægðatregðu og sem lystaukandi meðal.
  • Lækningar:   Dæmi um lækningar með fjallagrösum.
  • Fjallagrös á húð:  Fjallagrös bleytt og lögð sem bakstrar á þurra húð, exem og sár sem greru illa.

 Fjallagrös í nútímaþjóðfélagi

Þjóðfélagið á Íslandi hefur breyst mjög mikið frá lýsingunni hér að framan. Þjóðin er ekki eins háð náttúrunni um öflun matar eins og áður var. Meirihluti þjóðarinnar býr í þéttbýli og lifnaðarhættir hafa breyst stórkostlega.  Við hjá Íslenskum fjallagrösum hf. viljum byggja á hefðinni, sögunni og þeirri trú forfeðra okkar að fjallagrös séu heilsusamleg fæða og stuðli að almennri vellíðan fólks. Til að ná þessum markmiðum hefur fyrirtækið þróað vörur sem eru aðgengilegar fyrir fólk í nútímaþjóðfélagi þar sem áhugi fyrir náttúrulegum heilsuvörum fer sífellt vaxandi.

EFST Á SÍÐU